Aðeins örfá tjaldspör hafa verpt á Héraði undanfarna áratugi. Nú eru teikn á lofti um að þeim sé að fjölga. Áhyggjur vekja par sem verpti nálægt þjóðvegi á Egilsstaðanesi í fyrra og missti báða sína unga fyrir bíla og er nú aftur mætt á sömu slóðir.
Náttúrustofa Austurlands er að fara af stað með fiðrildavöktun á þremur stöðum á Austurlandi, Hallormsstað, Jökuldal og í Neskaupstað. Fiðrildin eru veidd í svo kallaða Ryrholm gildrur og þarf að tæma þær á viku fresti.
Starfsmenn Skógræktar ríkisins sjá um gildruna á Hallormsstað en þau hjónin Páll Benediktsson og Gréta Þórðardóttir bændur á Hákonarstöðum sjá um gildruna á Jökuldal . Starfsmenn NA sjá síðan um gildruna í Neskaupstað. Verkefnið er unnið í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands http://www.ni.is og er partur af norrænu vöktunarverkefni Moth Monitoring Scheme, en það er verkefni sem nær til Norðurlandanna, Eystrarsaltsríkjanna og NV-Rússlands. Markmið verkefnisins er að nota fiðrildi sem vísihóp til vöktunar á umhverfinu. Á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands má lesa nánar um fiðrildavöktun á íslandi sjá hér
Seinni part vetrar sjást hreintarfar oft nálægt byggð og hanga jafnvel þar langt fram á sumar. Á myndinni eru fjórir fullorðnir tarfar, líklega frekar ungir þar sem hníflar þeirra eru frekar litlir. Rígfullorðnir tarfar fella hornin fyrir jól en þeir yngri seinna. Sést hefur til slíkra á Héraði fyrir nokkru með yfir 20 cm langa hnífla. Með törfunum eru þrír kálfar en kýrnar venja þá af sér í vetrarlok áður en þær leita á hefðbundin burðarsvæði en ekki er ólíklegt að þessir kálfar séu fæddir í Sandvík.
Náttúrustofan fagnar öllum upplýsingum um hreindýr hvar og hvenær sem sést til þeirra og ekki er verra ef mynd fylgir með.