Kýrnar tvær sem voru í fréttum sjónvarpsins nú fyrir stuttu voru nefndar Vopna (nr 24) og Arna (nr 82). Á meðfylgjandi myndum sést að þær hafa líklega farið saman frá merkingunni 16. mars norður undir Bakkfjörð þar sem þær voru kl 5 í nótt. Þessar kýr hljóta að vera vel á sig komnar því annars mundu þær tæplega leggja upp í slíka langferð.Tækin staðsetja kýrnar tvisvar á sólarhring. Hlekkur á fréttina sem vitnað er í og er á vef Rúv.
Heilsaði upp á nokkur hreindýr á Reyðarfirði í gær og þrátt fyrir mikinn snjó eru þau feit og falleg. Innan við álverið var kýr sem Sævar Guðjónsson merkti sem kálf 16. maí 2018 og verður því tveggja ára í vor. Hún sást 19. nóvember 2018 á Þverárdalnum og 18. febrúar 2019 á Litlueyri við Eskifjörð. Var merkt við Andrann og legg því til að kalla hana Öndru.
Náttúrustofa Austurlands hefur nú opnað hreindýravefsjá sem ætlað er að halda utan um skráningu á hagagöngu hreindýra. Í gegnum tíðina hefur almenningur og ýmsir hagsmunaaðilar veitt dýrmætar upplýsingar um hvar hreindýr halda sig og hvenær. Nú er búið að gera þá skráningu aðgengilegri og geta áhugasamir skráð hreindýr sem á vegi þeirra verða jafnóðum í gegnum snjallsíma og tæki og jafnvel sent inn myndir eða myndskeið. Auk þess er hægt að sjá eldri skráningar. Nú þegar er hægt að skoða flestar tilkynningar frá almenningi fyrir árin 2015-2018. Upplýsingar frá almenningi eru dýrmætar við gagnaöflun vegna vöktunar hreindýra og viljum við hvetja alla til að skrá hreindýr sem þeir sjá. Ef vel tekst til gætu upplýsingar úr vefsjánni jafnvel nýst til að vara frekar við hreindýrum á vegum.
Gerð vefsjárinnar var í höndum starfsmanna Náttúrustofunnar og styrkt af Vinum Vatnajökuls og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og fyrir það erum við þakklát.
Þau stórmerku tíðindi gerðust fyrstu helgina í febrúar að Ivar Karl Hafliðason og Sveinbjörn Valur Jóhannsson náðu að hengja 6 GPS kraga um háls hreinkúa á veiðisvæðum 8 og 9 þ.e. í Suðursveit, á Mýrum og í Lóni. Bíðum við spennt eftir að sjá ferðir þeirra næstu mánuðina og munum við reyna að uppfæra þær upplýsingar reglulega á facebook síðu Náttúrustofunnar.