Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri rakst fyrir stuttu á torkennilegan vaðfugl. Af myndum sem Þröstur tók var ljóst að þar var á ferðinni flóastelkur. Náttúrustofa Austurlands heimsótti fuglinn og fylgja hér með myndir frá heimsókninni. Aðeins sást einn fugl en hann hélt sig á afmörkuðu svæði og tísti mikið eins og að hann ætti unga í mýrinni. Flóastelkur sást í fyrsta sinn á Íslandi 1959 í Mývatnssveit1. Næstu tvo áratugina grunaði menn að hann verpti þar annars slagið en ekki tókst að sanna það fyrr en 1981 er ungar sáust með flóastelkspari við norðanvert Mývatn2. Sumarið 2009 rákust starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands svo á par með 4 unga í Mývatnssveit3. Sumarið 1980 sáu Páll Leifsson og Skarphéðinn G. Þórisson flóastelk við Ferjukíl á Egilsstaðanesi og á svipuðum slóðum árið eftir4. Kristján Svavarsson birti myndir af torkennilegum vaðfugli á feisbókinni sumarið 2013 og reyndist þar vera flóastelkur. Fuglinn sem nú sást var um 800 m frá þeim stað sem fuglinn sást á 2013. Fuglinn sem starfsmenn Náttúrustofu Austurlands heimsóttu fyrir nokkrum dögum hagaði sér eins og hann ætti unga en varp verður ekki staðfest fyrr en hreiður eða ungar finnast. Niðurstaða okkar er að telja verður líklegt að flóastelkur sé sjaldgæfur varpfugl á Fljótsdalshéraði eins og í Mývatnssveit.
________________________________
1)Arnþór Garðarsson (1969). Er flóastelkur (Tringa glareola) varpfugl á Íslandi? Náttúrufræðingurinn 39 (1):10-15. 2)Galbraith, C.A. og Thomson, P.S. (1981). Flóastelkur (Tringa glareola) varpfugla á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 51(4):164-168. 3)http://nna.is/2009/07/23/1929/ 4)Skarphéðinn Þórisson (1990). Fuglalíf við Egilsstaðaflugvöll. Bliki 9:29-40
20 ára afmælisári Náttúrustofu Austurlands lýkur föstudaginn 24.júní n.k. Við bjóðum þér að fagna með okkur þann dag og sigla með okkur um Norðfjarðarflóa milli kl 17:30 og 20:30. Sætaframboð er takmarkað og því er nauðsynlegt að skrá sig. Skráning á na[hjá]na.is eða í 477-1774 fyrir 21.júní
Sunnudaginn 19.júní kl 10:00 Reyðarfjörður, Hólmanes. Mæting við upplýsingaskiltið á bílastæðinu á Hólmahálsi kl. 10:00. Gengið um friðlandið sem hefur að geyma ýmsar einkennisjurtir Austfjarða auk allmargra sjaldséðra tegunda. Neskaupstaður Mæting fyrir ofan strandblaksvöllinn kl 10:00. Gengið um skógræktina auk þess sem rýnt verður í nýjan gróður í nágrenni snjóflóðavarnargarðsins.
Leirufuglar 2016 á Reyðarfirði. Þann 7.5.2016 mættu átta manns í árlega leirufuglaskoðun Náttúrustofunnar og Ferðafélags Fjarðarmanna við Andapollinn og leiruna í botni Reyðarfjarðar kl 9:00 til 11:00. Veður var ágætt; vestan strekkingur, hálfskýjað og hiti um 5°. Alls sáust 30 fuglategundir sem flestar eru hefðbundnar fyrir svæðið og hafa sést áður að undanskilinni einni, stormmáfi. Eftirfarandi tegundir sáust að þessu sinni: Heiðagæs, silfurmáfur, heiðlóa, stelkur, skúfönd, spói, stokkönd, grágæs, hettumáfur, fýll, stormmáfur, sandlóa, jaðrakan, tjaldur, lóuþræll, þúfutittlingur, kría, bjargdúfa, æður, dílaskarfur, kjói, hávella, sendlingur, tildra, álft, álka, svartbakur, rauðhöfðaönd, straumönd og skógarþröstur. Hrossagaukar flugu yfir svæðið þegar fuglaskoðun var lokið og telst hann því ekki með. Heiðagæsahópar í oddaflugi í mikilli hæð flugu inn fjörðinn á meðan fuglaskoðun stóð sem greinilega voru að koma til landsins af hafi. Einn landselur virti fuglaskoðara fyrir sér skammt frá landi og vöktu tveir franskir fuglaskoðarar mesta athygli hans.
Leirufuglar 2016 á Norðfirði. Auk fjögurra starfsmanna frá Náttúrustofu Austurlands mættu 11 manns til fuglaskoðunar við Leirurnar í botni Norðfjarðar laugardaginn 7. maí 2016. Veður var kalt en bjart. Vestan strekkingur var framan af og hiti 4-5 gráður C°. Fuglaathugunin hófst kl 8 að morgni og stóð í um einn og hálfan klukkutíma en þá voru menn orðnir nokkuð vindbarðir, kaldir og komnir með óhóflegt sandmagn í hársvörðinn . Vegna vindgnauðs þyrptust fuglaskoðarar í hnapp skjólmegin við sandbing á söndunum innan við ósinn og skoðuðu þar sandana fyrir utan. Sandarnir í Norðfjarðaránni voru einnig skoðaðir lauslega en Leirurnar norðan flugvallar og Ingunnarkíll voru ekki skoðaðir að þessu sinni meðan á talningu stóð. Í ár sáust aðeins 17 tegundir meðan á formlegri athugun stóð en toppandarpar á Leirunum, nokkrar skúfendur á Ingunnarkíl og hrossagaukur á flugi bættust við þegar kíkt var lauslega yfir allt svæðið eftir að fuglaathuguninni lauk. Eftirfarandi tegundir sáust: Grágæs, rauðhöfði, æður, hávella, tjaldur, heiðlóa, sandlóa, lóuþræll, sendlingur, stelkur, hettumáfur, sílamáfur, silfurmáfur, líkl. bjartmáfur (ungur), kría, þúfutittlingur og hrafn. Frá Náttúrurstofu Austurlands mættu: Elín Guðmundsdóttir, Kristín Ágústsdóttir, Áslaug Lárusdóttir og Rán Þórarinsdóttir. Aðrir fuglaskoðarar á svæðinu þennan morgun: Þorgeir. V. Þórarinsson (heilsaði upp á okkur en var annars mættur til að taka út æðarvarpið), Tómas Ægir Theodórsson, Benedikt K. Gröndal, Kristín B. Jónsdóttir, Ari Benediktsson, Ari Sigurjónsson, Hafrún Katla Aradóttir, Jóna Katrín Aradóttir, Benedikt Sigurjónsson, Sigurður Þór Vilhjálmsson og Robyn Vilhjálmsson. Þorgeir gat frætt okkur á því að minkur hafi verið að gera kollum lífið leitt í varpinu en hann hafði náðst deginum áður. Það verður að teljast vel af sér vikið að svo margir fuglaáhugamenn sjá sér fært að mæta svo snemma á laugardagsmorgni þrátt fyrir svalt og vindasamt veður. Bætti það vel upp fyrir fremur slæglega mætingu fuglategunda. Vonandi verður mæting fuglaskoðara áfram góð á næsta ári og fuglategundir á Norðfjarðarleirum fleiri.
Þátttakendur í fuglaskoðun á Reyðarfirði 7.maí 2016 við andapollinn.
Þátttakendur á Reyðarfirði virða fyrir sér fugla á leirunni.
Þáttakendur í fuglaskoðun í Neskaupstað, eins og sjá má var ansi kalt eystra megin við sandbinginn á móti hafi.
Næstkomandi laugardag 7. maí verður árleg fuglatalning og fuglaskoðun á leirum Reyðarfjarðar og Norðfjarðar. Er þetta samvinnuferð Ferðafélags Fjarðamanna og Náttúrustofu Austurlands. Hist verður kl. 9 á Reyðarfirði við Andapollinn og kl. 8 á Norðfirði við Leiruna. Sérfræðingar Náttúrustofu Austurlands verða á svæðinu, stjórna talningu og verða með skóp en gott er að hafa með sér sjónauka. Allir velkomnir.
Það er orðið að árlegum viðburði að nemendur í fjórða bekk Nesskóla komi í heimsókn til Náttúrustofu Austurlands og Matís í Neskaupstað ásamt kennurum sínum. Í þessari stuttu en skemmtilegu heimsókn fá krakkarnir kynningu á því hvað er gert á Náttúrustofunni. Þau kynntu sér m.a. rannsóknir á hagagöngu hreindýra með GPS með hjálp landupplýsingatækni. Þau sáu hvar dýrin héldu sig og hversu hratt þau hlaupa á ólíkum tímum árs og komu með góðar tillögur að túlkun gagnanna. Þau voru frædd um ýmis konar rannsóknir á lífríki lands og sjávar. Það sem stendur þó oftar en ekki uppúr er þegar þau fá að snerta og skoða sjálf og því er víðsjáin og það sem þau skoða í henni vinsælt viðfangsefni.