Nú um nýliðna helgi var Tæknidagur fjölskyldunnar haldinn í fjórða sinn, fjöldi gesta kom á Tæknidaginn og margir langt að, samkvæmt skráningu í gestabók var nýtt aðsóknarmet slegið. Náttúrustofa Austurlands tók á móti gestum og gangandi með myndasýningu, fróðleik um hreindýr, sýndi m.a. senditæki sem sett hafa verið á hreindýr og netbyssu sem notuð er ef fanga þarf hreindýr í rannsóknaskyni. Einnig var í boði að skoða skordýr í víðsjá og nota spjaldtölvu sem málmleitartæki, að ógleymdum sandkassanum sem er samstarfsverkefni með Advania, Trackwell og Verkmenntaskóla Austurlands. Á meðfylgjandi mynd má sjá áhugasama krakka leita með "málmleitartæki"
Hinn árlegi Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 15.október frá klukkan 12:00 – 16:00. Fjöldi fyrirtækja á Austurlandi kynnir nýjasta nýtt. Sem fyrr er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, sköpun og þróun á Austurlandi og miðast dagskráin við alla aldurshópa. Ýmislegt verður í boði að þessu sinni, til dæmis verður reynt að ganga á vatni í fyrsta sinn í sögu Austurlandsfjórðungs.
Náttúrustofa Austurlands verður að vanda með ýmislegt í pokahorninu í þessum skemmtilega degi, sandkassinn verður td á sínum stað en hann naut mikilla vinsælda síðast. Allir velkomnir.
Í sumar kom út 26.árg 1.-2.tbl. 65-66, Glettings sem var tileinkað 20 ára afmæli Náttúrustofu Austurlands, en hún fangaði 20 ára starfsafmæli árið 2015. Í blaðinu er m.a. rifjuð upp saga Stofunnar og fjallað almennt um hlutverk náttúrustofa á landinu sem eru nú átta talsins. Bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn Stofunnar sem og fjölmargir fræðimenn víða að eru meðal höfunda efnis. Þeim ber að þakka, sem og stjórn Útgáfufélags Glettings fyrir samstarfið og tækifærið. Afmælisblaðið má nálgast hér á síðunni undir Útgefið efni , þá er velkomið að hafa samband við Stofuna og fá sent útprentað eintak í bréfapósti.
Náttúrustofa Austurlands fagnar framtaki Náttúruverndarsamtaka Austurlands að berjast gegn ónýtum girðingum. Á heimasíðu þeirra (http://www.nattaust.is/) segir eftirfarandi: “NAUST fékk styrk frá Umhverfisráðuneytinu til að standa straum af hvatningarátaki á starfssvæði sínu til að fjarlæga ónýtar girðingar. Átakinu er ætlað að beina sjónum að þeim hættum sem stafa af ónýtum girðingum sem og því lýti sem þær eru í landslaginu.” Flest ár fréttir Náttúrustofan af einu eða fleiri hreindýrum sem drepast í girðingum eða öðrum vír. Einna verst er þetta um fengitímann þ.e. seinni hluta september og október. Þá stanga tarfarnir ýmislegt sem fyrir þeim verður þ.a.m. ónýtar girðingar sem vilja festast í hornum þeirra. Ef það gerist geta þeir svo „veitt“ aðra tarfa í erjum við þá. Samfastir eiga þeir sér ekki lífs von. Reyndar á þetta við um allan vír sem liggur á víðavangi og þannig veiddi símavír sem lá á jörðinni í Loðmundarfirði nokkra tarfa í gegnum tíðina og eitt sinn hröpuðu tveir rígfullorðnir samfastir tarfar fram af sjávarklettum utan við Stakkahlíð (1. mynd). Fyrir nokkrum árum festist veturgamall tarfur í aflagri túngirðingu í Arnórsstaðamúla. Sem betur fer sást til hans og tókst að losa hann (2.-4. mynd). Þetta var ekki í fyrsta sinn sem sú girðing „veiddi“ hreintarfa. Náttúrustofan hefur skorað á sveitarfélagið að sjá til þess að sú girðing verði fjarlægð og var vel tekið í það. Munum við reyna að leggja verkefninu lið með því að tilkynna um aflagðar og ónýtar girðingar svo og annað drasl sem verða á vegi okkar og geta verið dauðagildrur fyrir hreindýr.
Dauðir hreintarfar í fjöru í Loðmundarfirði 15. október 2003 fastir saman á hornum í símavír.
Veturgamall tarfur fastur í aflagri túngirðingu í Arnórsstaðamúla á Jökuldal, leystur úr prísundinni og merktur þann 17. janúar 2010.
Veturgamall tarfur fastur í aflagri túngirðingu í Arnórsstaðamúla á Jökuldal, leystur úr prísundinni og merktur þann 17. janúar 2010.
Veturgamall tarfur fastur í aflagri túngirðingu í Arnórsstaðamúla á Jökuldal, leystur úr prísundinni og merktur þann 17. janúar 2010.
Þrír starfsmenn Náttúrustofu Austurlands fóru til Noregs um miðjan ágústmánuð til að kynna sér vinnuaðferðir og skipulag við langtímarannsóknir á vetrarbeitarsvæðum villtra hreindýra á Harðangursheiði. Rannsóknin, sem snýr að samspili hreindýra og flétta, er unnin af starfsmönnum NINA (Norsk institutt for naturforskning), þeim Olav Strand og Erling Solberg. Auk þess að kynnast vetrarbeitarsvæðum hreindýra á Harðangursheiði og vinnuaðferðum NINA fékk starfsfólk Náttúrustofunnar innsýn í þátttöku hreindýrarannsakenda og þeirra sem nýta hreindýrin. Þar eru helst ferðaþjónustuaðilar, veiðimenn og landeigendur í skipulagsferlum og ákvarðanatöku vegna framkvæmda við stíflumannvirki þar sem mikil áhersla er lögð á að lágmarka neikvæð áhrif á hreindýr. Vinnudagarnir voru langir en ferðin var afar lærdómsrík.
Vetrarbeitarsvæði hreindýra í Hardangervidda í Noregi, eru um margt lík beitarsvæðum hreindýra á Austurlandi fyrir utan að þar er mun meira af fléttum á berum holtum og hryggjum.
Samanburðarreitur þar sem gróður er varinn mögulegri hreindýrabeit á að varpa ljósi að samspil hreindýr og gróðurfars á þessum svæðum.
Starfsmaður Náttúrustofu Austurlands varð var við skötuorma í tjörnum við Eyjafell á Eyjabakkasvæðinu og voru þeir þar í miklum þéttleika. Einnig hefur Stofunni verið tilkynnt um þá í vötnum á Teigarselsheiði. Skötuormurinn er stærsta krabbadýrið sem lifir í ferskvatni hér á landi og eina tegundin í hópi barðskjöldunga (Notostraca). Lesa má meira um skötuorm á veggspjaldi Náttúrustofu Vestfjarða.