Sunnudaginn 14.júní 2009 verður gönguferð með blómaskoðun.
Neskaupstaður: Mæting á bílaplaninu við fólkvanginn (hjá vitanum) klukkan 10:00 Leiðsögn: Erlín Emma Jóhannsdóttir og Gerður Guðmundsdóttir Í fólkvanginum er mikil og fjölbreytni tegunda og gróðurlendi víða gróskumikil. Einkennisjurtir Austfjarða, sjöstjarna,gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka vaxa þar allar. Í ferðinni verður einnig litið eftir sjaldséðum tegundum eins og þúsundblaðarós, hagastör, skógfjólu og lyngbúa.
Egilsstaðir: Mæting á gatnamótum Seyðisfjarðarvegar og Fagradalsbrautar kl. 9:30. Gengið verður um Egilsstaðaskóg innan vegar og blæöspin skoðuð. Síðan gengið að Löngutjörn, inn fyrir hana, út Hamra og endað við útsýnisskífu undir hádegi. Leiðsögn: Skarphéðinn Þórisson.
Fáskrúðsfjörður: Mæting við Hólagerði kl. 19:00. Leiðsögn: Líneik Anna Sævarsdóttir.
Skipulagt af flóruvinum í samvinnu við ýmsa aðila.
Þann 28. maí sá Jóhann G. Gunnarsson í Fellabæ krossnefskerlu mata tvo unga í garðinum hjá sér og gerði Náttúrustofunni viðvart og náðust meðfylgjandi myndir þá. Krossnefir verptu á Suðurlandi í vetur en ekki hefur fyrr verið staðfest varp hér eystra þetta árið. Nánari upplýsingar um komur og landnám krossnefs má lesa í fróðlegri grein Daníels Bergmann; Krossnefir gera vart við sig" í 1.tbl. Skógræktarritsins 2009.
Skráning er hafin á náttúrufræðinámskeið Í júní og júlí verður boðið upp á tvö vikunámskeið í náttúrufræðum fyrir krakka sem eru fædd 1999-2001. Markmið námskeiðsins er að kynna fjölbreytt plöntu-og dýralíf í íslenskri náttúru og efla þekkingu á sviði náttúrufræða. Farið verður í vettvangsferðir, plöntum og dýrum safnað.
Fyrra námskeiðið verður haldið á Eskifirði dagana 22.-26. júní frá kl 10:00-13:00 Þátttakendur mæta á Mjóeyri alla daga með hlífðarföt, stígvél og nesti. Námskeiðsgjald er 3.000 kr.
Seinna námskeiðið verður haldið í Neskaupstað dagana 29. júní – 3. júlí frá kl 13:00-15:00 Þátttakendur mæta í húsnæði Náttúrustofunnar (Mýrargötu 10) alla daga með hlífðarföt, stígvél og nesti. Námskeiðsgjald er 3.000 kr.
Skráning fer fram á Náttúrustofu Austurlands í síma 477-1774 eða í tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. þar sem þarf að koma fram nafn barns, heimilisfang og aldur. Nafn og símanúmer forráðamanna. Athugið að fjöldi þátttakenda miðast við 10 á hvort námskeið.
Sigurbjörg Þórarinsdóttir eigandi verslunarinnar Skógar á Egilsstöðum hafði samband við Náttúrustofuna þann 20. maí og sagði frá því að starar væru líklega með hreiður í þakskeggi verslunarinnar. Það stóð heima og fylgja hér með myndir af parinu sem stóðu í ströngu að mata unga sína og fjarlæga dritpoka frá þeim.
Árni S. Þorgeirsson myndaði hóp hreindýra ofan við Þrastalund í Norðfirði þann 15. maí og fylgja nokkrar þeirra hér með (með góðfúslegu leyfi ÁSÞ). Tók hann eftir því að einn tafanna var eyrnamerktur með blátt merki í vinstra eyra og svart í því hægra. Hann lét Náttúrustofuna vita og þá kom í ljós að hann var merktur 30. maí 2005 í Sandvík (sjá: Í eldri fréttum) og verður því fjögurra ára eftir rúma viku. Hér með fylgir líka mynd (Rán Þórarinsdóttir) af honum nýmerktum í Sandvík.
Undanfarið hafa landsvölur víða sést en þær heimsækja okkur flest vor. Einstaka sinnum reyna þær varp og eru nú tvær svölur á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá í þeim hugleiðingum samkvæmt Tíbrá Halldórsdóttur. Hugrún Sveinsdóttir og Stefán Jónsson á Haugum í Skriðdal höfðu samband við stofuna og sögðu frá fjórum landsvölum sem heimsóttu þau í vor og fylgir hér með ein mynd af svölu frá þeim sem þau veittu góðfúslega leyfi til birtingar á heimasíðu Náttúrustofunnar. Þeir sem verða varir við svölur eða aðra sjaldgæfa fugla í varphugleiðingum eru beðnir um að hafa samband við Náttúrustofu Austurlands.