Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Fólkvangur Neskaupstað - Náttúruvernd

Náttúruvernd
Markmið friðlýsinga eru einkum tvö. Annars vegar að varðveita hið friðlýsta landsvæði svo ósnortið af manna völdum sem kostur er þannig að lífríkið fái þar að dafna eftir lögmálum náttúrunnar sjálfrar. Samfelldar heildir ósnortinnar náttúru, sem geyma villtar tegundir lífvera og búsvæði þeirra, eru nokkurs konar bankar líffræðilegrar fjölbreytni. Slík svæði verða sífellt mikilvægari eftir því sem vaxandi hluti jarðar ber merki mannlegra umsvifa. Hins vegar er markmið friðlýsinga að gefa fólki kost á að njóta útivistar í óspilltri náttúru sér til ánægju, lífsfyllingar og menntunar.

Til að ná markmiðum friðlýsingarinnar voru settar reglur um fólkvanginn. Þar segir:
Að svæðið sé friðland þar sem fólki er einungis heimil
för fótgangandi.
Að ekki megi tína blóm eða trufla dýralíf.
Að mannvirkjagerð og jarðrask, búfjárbeit og meðferð skotvopna sé bönnuð.

Umhverfismálaráð Neskaupstaðar hefur eftirlit með fólkvanginum.

Fólkvangur Neskaupstað - Landslag og jarðfræði


Norðfjarðarnípa eða Nípa nefnist ysti hluti fjallgarðsins milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Skammt utan Stóralækjar er fjallið hæst, 819 m og heitir þar Nípukollur. Hallar fjallsegginni þaðan til norðausturs niður í 609 m en þá taka við hamraflug í sjó að Níputá og Flesjartanga. Fólkvangurinn liggur austan í Nípunni frá fjallsegg að sjó og tekur friðlýsingin einnig til grynninga út frá ströndinni.

Nípan er upphlaðin úr blágrýtishraunlögum, mismunandi þykkum og hallar þeim dálítið inn til landsins. Hjallar og rákir sem eru milli hraunlaganna fara því hækkandi út Nípuna. Víða skerast berggangar upp gegnum hraunlögin. Hagi er neðsti hjallinn en ofan hans eru Hálsar sem skiptast um slitrótt klettabelti í Neðri- og Efri- Háls. Innsti hluti klettanna heitir Selhraun rétt utan við Stóralæk. Fyrir ofan Efri- Háls er Viðarhjalli, neðan undir hamrabeltum Nípunnar í 250 - 300 m hæð.

Hagi er talinn vera gamall brimstallur, til þess benda m.a. sléttfægð og þverhnípt basaltlög ofan hans og stórgrýtisbjörgin á kafla neðan þeirra þar sem heitir Urðir. Ströndin neðan Haga og út með Nípu eykur á fegurð svæðisins. Leifar af berggöngum standa þar á nokkrum stöðum af sér ágang hafsins og mynda stapa skammt frá landi. Brimið hefur víða sorfið skúta milli hraunlaga og er Páskahellir þeirra mestur.

Fólkvangur Neskaupstað - Gróðurfar


Tegundafjölbreytni er mikil í fólkvanginum og gróðurlendi víða gróskumikil. Einkennisjurtir Austfjarða, sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka vaxa þar allar. Einnig allmargar fremur sjaldséðar tegundir svo sem villilín, klettafrú, þúsundblaðarós, sifjarsóley, skógfjóla, lyngbúi, hagastör og dúnhulstrastör.

Í brekkum undir klettum bæði í Haga og uppi á Hálsum þar sem snjór hlífir að vetri og skjólgott er að sumri er mikið blómskrúð fyrri hluta sumars. Talsvert votlendi er á Hálsum og sums staðar í Haga. Þar vaxa meðal annars starir, sef og fífur en grös þar sem þurrara er. Víða eru fallegir lyngmóar og sums staðar dálítið kjarr. Í hömrum og kömbum við sjóinn er að finna saltþolnar plöntur svo sem skarfakál, burnirót, kattartungu og blálilju.
Fólkvangslandið var löngum nýtt til beitar, einkum Hagi, en gróður hefur tekið stakkaskiptum eftir að friðað var fyrir beit um 1970. Tegundasamsetning gróðurlenda er óðum að breytast, blómjurtir, lyng og víðir koma smám saman í stað graslendis. Birki er komið í hlíðar og allháir víðibrúskar. Ætihvönn og geitla eru nú algengar en sáust varla meðan landið var beitt. Einir og fleiri tegundir sem héldu velli í rákum úti í Nípu eru  óðum að dreifast þaðan.

Fólkvangur Neskaupstað - Dýralíf


Fjölskrúðugt fuglalíf er við Haga og úti í Nípu sem er ein iðandi fuglabyggð er utar dregur. Í sjávarhömrunum er varpstaður ýmissa bjargfugla.  Fýll og rita eru algeng, einnig silfurmávur, svartbakur og lundi. Æðarfugl er við ströndina og dílaskarfar sjást oft, einkum að vetri. Í hömrum ofan Hagans verpir hrafn og skógarþröstur. Steindepill verpir í Urðum og þar hefur sést músarrindill um varptímann. Uppi á Hálsum verpa ýmsir vaðfuglar og mófuglar og bjargdúfa í klettaholum inn og upp af Hundsvík.

 

Í pollum á flesjum og töngum má um fjöru og eftir brim sjá ýmis smádýr sem tilheyra lífríki fjörunnar svo sem marflær. Hrúðurkarl og sniglar eru víða á klettum við ströndina og uppi í Haga er svartsnigill og Austfjarðabobbi eða lyngbobbi. Í mógröfum má finna brunnklukkur.


Fólkvangur Neskaupstað - Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

Hagi
Auðvelt er öllum að ganga út í Haga. Á aðra hönd er ströndin með stöpum og vogum, þar er víða aðgrunnt og brýtur á boðum og flesjum. Berggangar standa á nokkrum stöðum af sér ágang hafsins og mynda stapa og tröllahlöð skammt frá landi. Dökkt bergið stingur fagurlega í stúf við hvítfreyðandi brimrótið sem oft verður stórfenglegt. Á hina höndina er klettabeltið með gróðursælum brekkum neðanundir. Stór björg hafa fallið úr Hagaklettum við frostveðrun, og ef til vill brimrót forðum tíð, og myndað Urðir. Björgin standa nú þar á ýmsa kanta eins og hús í ævintýraborg, mörg hver skreytt mosum og fléttum. Milli þeirra er skýlt og víða skuggsælt. Vaxa þar meðal annars byrkningar svo sem tófugras og skollafingur og krossköngulóin spinnur þar vefi sína. Mótekja var stunduð rétt innan við Urðir um og eftir síðustu aldamót og sér enn móta fyrir mógröfum.

Lesa meira

Fiðrildafréttir

Gulygla mynd af vef Náttúrufræðistofnunnar ÍslandsAð undanförnu hefur borið á 2 flækingsfiðrildum í gildru Náttúrustofunnar í Neskaupstað.  Asparyglu (Agrochola circellaris) og netluyglu (Xestia c-nigrum) . Netluyglan er talin fágætur flækingur og hefur aðeins fundist á tveim stöðum á Suðausturlandi, Kvískerjum í Öræfum og Höfn í Hornafirði. Asparyglan hefur fundist hér á landi í þó nokkru mæli í fiðrildagildrum á haustin en er þó talin flækingur sjá nánar um Asparyglu á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands með því að smella hér Einnig hefur borið mikið á gulyglu (Noctua pronuba) hún er þó landlæg hér og finnst á láglendi en einnig berst hún til landsins á haustin. Gulygla er með stærstu fiðrildum hér á landi smellið hér til að sjá nánari upplýsingar um Gulyglu

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir