Þann 23. júní kom Náttúrustofa Austurlands við í leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði með Grænfána handa krökkunum og starfsfólki leiksólans. Grænfáninn er viðurkenning sem veitt er skólum og leikskólum sem náð hafa góðum árangri í umhverfismálum. Grænfáninn er hluti verkefnis á vegum alþjólegs félags sem heitir Foundation for Environmental Education (FEE). Þetta félag stýrir umhverfismenntunarverkefni þar sem 38 þúsund skólar í 50 löndum taka þátt. Verkefnið gengur út á að auka umhverfismenntun í skólum og vitund nemenda og kennara í umhverfismálum. Landvernd er fulltrúi FEE hér á landi og sér um utanumhald verkefnisins. Náttúrustofa Austurlands hefur verið þeim innan handar með að koma fánanum í skóla og leikskóla á Austurlandi.
Þann 16. júní slóst Náttúrustofa Austurlands í för með Náttúrustofu Norðausturlands og Náttúrustofu Vestfjarða í ferð þeirra á Borgarfjörð eystri. Þar voru snaraðar nokkrar ritur sem merktar höfðu verið með staðsetningartækjum vorið 2009. Náttúrustofa Norðausturlands merkti fuglana á sínum tíma og var markmiðið með þessu veiðiátaki að ná staðsetningartækjunum af fuglunum aftur til að hægt væri að hlaða gögnum inn í tölvu og geta svo endurnýtt tækin.
Eins og þrjú undanfarin ár hélt Náttúrustofa Austurlands náttúrufræðinámskeið á Eskifirði í samstarfi við Ferðaþjónustuna Mjóeyri. Námskeiðið er hluti af dagskrá gönguvikunnar „ á fætur í Fjarðabyggð“ Fimm krakkar tóku þátt og luku því með sóma.
Tilkynning Vegna ónógrar þáttöku fellur niður áður auglýst námskeið í náttúrufræðum fyrir börn frá 8-10 ára, sem halda átti í Neskaupstað dagana 27.júní - 1.júlí.
Þann 21. júní afhjúpaði umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir vörður að austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs norðan Snæfells. Vörðurnar voru gjöf Vina Vatnajökuls til þjóðgarðsins og tók formaður stjórnar Kristveig Sigurðardóttir á móti gjöfinni úr hendi varaformanns samtakanna Bjarna Daníelssonar.
Dagur hinna viltu blóma eða blómadagurinn eins og hann er oft kallaður var sunnudaginn 19.júní síðastliðinn. Farið var í skipulagða skoðanaferð í Fólkvanginn í Hólmanesi.