Fuglaskoðun og fuglatalning á leirum Norðfjarðar og Reyðarfjarðar verður laugardaginn 10.maí. Þetta er árviss viðburður sem Náttúrustofa Austurlands og Ferðafélag Fjarðamanna standa að. Fuglaskóp verður á staðnum og starfsmenn Náttúrustofunnar leiðbeina fólki.
Mæting á háfjöru á leirunum á Norðfirði klukkan 11:00 og við Andapollinn á Reyðarfirði klukkan 11:30. Frítt fyrir alla og allir velkomnir
Nýafstaðin er vortalning á gæsum og álftum á Héraði. Líkt og í fyrri vortalningum voru gæsir og álftir mest þar sem stundaður er kúabúskapur. Alls sóttu sjö tegundir gæsa Héraðið heim í apríl auk álfta. Þetta voru varptegundirnar grágæs og heiðagæs og umferðartegundirnar helsingi, blesgæs og margæs og loks flækingstegundirnar kanadagæs og snjógæs (sem fréttist af en sást ekki í talningunni).
Grákráka, Corvus corone cornix,hefur sést í Neskaupstað undanfarið þessi tegund er flækingur hér á landi en sést þó af og til hér á landi, hún er ekki hluti af íslensku fuglafánunni Krákur tilheyra ætt hröfnunga Corvidae, en einungis einn fugl af þeirri ætt verpir hér á landi en það er hrafninn. Hér til hliðar er mynd af fuglinum sem var þegar myndin er tekin uppi í tré við Þiljuvelli í Neskaupstað.
Félag íslenskra safna og safnmanna og Íslandsdeild ICOM (Alþjóðaráð safna) standa saman að íslensku safnverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár safni sem með starfsemi sinni þykir skara fram úr. Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum. Til greina koma söfn og einstök verkefni á sviði safna sem þykja til eftirbreytin og íslensku safnastarfi til framdráttar. Bent er á að tilnefna má sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi.
Þann 19. apríl sáust tveir hnúfubakar utarlega í Seyðisfirði. Hnúfubakurinn er skíðishvalur og heitir Megaptera novaeangliae á fræðimáli. Fyrra nafnið þýðir “risavængur” en bægsli þeirra geta orðið 5-6 m löng. Þeir koma flestir á vorin eins og farfuglarnir eftir vetrardvöl í heitari höfum. Þeir geta orðið 17m langir og um 40 tonn að þyngd og lifað í a.m.k. 95 ár. Kýrin er í við stærri en tarfurinn. Kálfurinn er um hálft tonn við fæðingu og 4-5m langur. Hnúfubakurinn var mikið veiddur fyrrum en friðaður 1955. Síðustu áratugi hefur honum fjölgað mikið
Miðvikudaginn 23. apríl nk. kl. 12:15-12:45 flytur Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur á Náttúrustofu Norðurlands vestra, erindi sem hann nefnir: Berghlaupið við Morsárjökul, 20. mars 2007.
Erindinu verður varpað um fjarfundarbúnað vítt og breitt um landið. Í Neskaupstað er hægt að fylgjast með erindinu í Verkmenntaskóla Austurlands en á Egilsstöðum í Vonarlandi.