Í byrjun september fengu starfsmenn Náttúrustofunnar norskan gróðursérfræðing, Hans Tømmervik, í heimsókn til að koma af stað rannsókn á vetrarbeit hreindýra. Það gekk vel og urðu starfsmenn Stofunnar margs fróðari um fléttur og annan gróður sem hreindýrunum þykir gott að bíta.
Þau leiðu tíðindi bárust að GPS kýrin okkar hún Linda sem merkt var í mars sl varð fyrir slysaskoti. GPS kýrnar eru vel merktar með litríka hálskraga, en því miður sást Linda ekki í kúahópi sem skotið var úr. Við erum í góðu samstarfi við hreindýraleiðsögumenn sem er dýrmætt og fáum við tækið til okkar. Stefnt er að því að koma því við fyrsta tækifæri í vetur á nýtt dýr.
Náttúrustofa Austurlands og Ferðaþjónusta Mjóeyrar hafa frá 2008 haldið 5 daga náttúrufræðinámskeið fyrir krakka í Gönguvikunni í júní. Í ár var námskeiðið haldið dagana 25.-29. júní. Vegna aðkomu og aðstoðar frá nokkrum forráðamönnum var hægt að taka á móti met fjölda barna en í ár voru 19 krakkar skráðir til leiks. Námskeiðið er miðað við börn á aldrinum 7-10 ára og óhætt að segja að áhuginn er mikill.
Í fjöruskoðun á Mjóeyri við Eskifjörð 29. júní 2018 fundu krakkar sem voru á Náttúrufræðinámskeiði tvær hveljur í fjöruborðinu sem ekki höfðu áður sést á námskeiðinu. Voru hveljurnar háfaðar upp og myndaðar. Starfsfólk Náttúrustofunnar komust að því að hér væri um svokallaðar kambhveljur (Ctenophora) að ræða sem við fyrstu sýn minna nokkuð á marglyttur en eru þó lítt skyldar þeim. Fyrirspurn var send á Hafrannsóknastofnun og þar var greining Náttúrustofunnar staðfest og talið líklegt að þetta eintak væri af tegundinni Beroe Cucumis.
Þótt þetta dýr kunni að þykja nýstárleg í augum venjulegra landkrabba þá er hún algeng í Norður Atlandshafi og birtist oft á myndum Hafrannsóknarstofnunar úr efstu tugum metra sjávar (upplýsingar í tölvupósti frá Steinunni Hilmu Ólafsdóttur hjá Hafró).
Síðan 2016 hafa nokkrar körfur staðið á hvolfi uppi í hlíðinni fyrir ofan Neskaupstað. Þær marka tilraunareiti og eru þar til prufu fyrir rannsóknir á vetrarbeit hreindýra sem komið verður á laggirnar í haust uppi á hásléttu Austurlands. Tilgangur karfanna er að skapa afmarkað svæði þar sem fléttugróður, sem hreindýr sækja í á veturna, er ekki bitinn og bera það svæði síðan saman við svæði í nágrenni karfanna þar sem hreindýrin hafa greiðan aðgang að fléttum. Þessar rannsóknaraðferðir eru að fordæmi norska hreindýra- og beitarsérfræðinga sem starfsmenn Stofunnar heimsóttu sumarið 2016 og mun einn þeirra koma hingað í heimsókn í haust og leiðbeina við uppsetningu rannsóknarinnar.
Ráðstefna um tengsl hálendis og samfélags á Austurlandi var haldin dagana 24.-25. maí á Hótel Héraði. Ráðstefnan var að frumkvæði Unnar Birnu Karlsdóttur hjá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands á Austurlandi í samvinnu við Söguslóðir Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Minjasafn Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarð/Snæfellsstofu og Óbyggðasetur Íslands. Tveir starfsmenn Náttúrustofu Austurlands héldu erindi á ráðstefnunni, Skarphéðinn G. Þórisson fjallaði um hreindýr og gæsir á hásléttu Austurlands og Guðrún Óskarsdóttir um gróður á hásléttu Austurlands. Önnur erindi fjölluðu m.a. um jarðfræði, eldvirkni, byggðasögu og hreindýraveiðar á Austurlandi og voru allir á einu málu um að öll erindin hafi verið afar fræðandi og skemmtileg.